Um kjararáð

Með lögum nr. 60/2018 voru lög nr. 130/2016 felld úr gildi frá 1. júlí 2018 og lýkur þar með starfsemi ráðsins.

Lög um kjararáð nr. 130/2016 tóku gildi 1. júli 2017 og leystu af hólmi lög nr. 47/2006 . Með nýjum lögum er þeim fækkað sem heyra undir úrskurðarvald ráðsins um laun og starfskjör.

Kjararáð er sjálfstætt ráð sem er falið það verkefni að ákveða laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins. Í þeim hópi eru alþingismenn, ráðherrar, dómarar, saksóknarar, sendiherrar, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar sem fara með fyrirsvar fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðherra við gerð kjarasamninga, forsetaritari, seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, ríkissáttasemjari og nefndarmenn úrskurðarnefnda í fullu starfi. Ákvörðun um laun og starfskjör biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar heyrir undir kjararáð þar til samkomulag hefur náðst við þjóðkirkjuna um nýtt launafyrirkomulag. Þá segir í bráðabirgðaákvæði með hinum nýju lögum að málum sem við gildistöku laganna hafa verið tekin til meðferðar skuli lokið samkvæmt ákvæðum laga nr. 47/2006.

Mál hjá kjararáði

Um meðferð mála hjá kjararáði fer samkvæmt ákæðum laga um kjararáð. Kjararáð skal taka mál til meðferðar þegar því þykir þurfa. Eigi sjaldnar en árlega skal ráðið meta hvort tilefni sé til breytinga á starfskjörum sem það ákveður og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á launum í þjóðfélaginu.

Þeim sem undir úrskurðarvald kjararáðs falla, talsmönnum þeirra, öðrum ráðuneytum vegna starfsmanna og stofnana sem undir þau heyra og ráðuneyti sem fer með starfsmannamál ríkisins skal gefinn kostur á að leggja fram skriflegar eða munnlegar greinargerðir vegna þeirra mála sem til úrlausnar eru. Ráðið getur og heimilað málsaðilum að reifa mál sitt fyrir ráðinu. 

Ákvörðunum og úrskurðum kjararáðs verður ekki skotið annað en til dómstóla.